sunnudagur, 4. nóvember 2007

Geitungar - traktorar - hitastig


Þrjú stikkorð sem myndu gefa ágætis útdrátt af vikunni, ef þess væri þörf. Ég get ekki sett „heitt“, eða „kalt“; bara hitastig, af því að það var ansi mikið af hvoru tveggja, en hvort tveggja átti mikinn þátt í líðan minni uppi í fjallahúsinu í Lozère. Fyrst var rosalega kalt, en síðan varð frekar heitt yfir daginn og þá vöknuðu sex milljón þúsund vespur og gerðu aðsúg að húsinu. Ef þið þekkið mig vitið þið hversu yndislegt mér fannst það. Við sátum úti; ég, Grég, Hildur, Françoise og Lucie og geitungarnir mynduðu gífurlegan hljóðmúr suðs sem nísti mig inn að beini og ég mun seint jafna mig af; eftir að við höfðum lesið þögul hvert á sínum stað í hátt í hálftíma, ég fullur viðbjóðs og sífellt að hrista af mér ímyndaðar flugur, kvaddi Grég sér hljóðs vegna hins yfirgnæfandi gnýs: Hm! Eru þetta geitungarnir? Og allir bara: Já, vá, hahaha. ÞAU HÖFÐU EKKI EINU SINNI TEKIÐ EFTIR ÞEIM! Þegar ég fór að sofa á kvöldin losnaði ég ekki við suðið og var nokkuð sannfærður um að þetta væri ný tegund erfðabreyttra hergeitunga sem þyrfti aldrei að sofa og væru í óðaönn að brjóta sér leið inn í svefnherbergið til þess að fljúga inn í munninn á mér um leið og mér rynni í brjóst. Ég er pínu geðveikur hvað þetta varðar.

Hvað traktorana varðar þá var aðalmál vikunnar að skipta um traktor á óðalinu, gamall traktor þakinn málverkum sem eru af Frökkum kölluð „babacool“ og eiga að vísa til sjöunda áratugar síðustu aldar átti að víkja fyrir nýjum traktor frá Avignon, sem var samt gamall og fór ekki í gang þegar á hólminn var komið. Þetta var að sjálfsögðu tilefni mikils blóts í munni ættföðurins Roberts (sem hefði sennilega orðið mjög vonsvikinn ef allt hefði gengið samkvæmt áætlun) og endalausra traktortilrauna og-keyrslna. Grég, tengdasonur Roberts, var í aðalhlutverki við að keyra traktor upp og niður veginn. Allt þetta átti sér stað fyrstu tvo daga vikunnar, meðan ennþá var kalt. Við sáum þá karlmenn lítið þá daga nema þegar Robert hleypti Grég heim í mat, nær dauða en lífi af kulda og þakinn í hráka vegna blótsyrðanna sem hrutu án hlés af vörum þess eldri. Svo varð heitt og notalegt.

Vikan leið annars við bókalestur og rólegheit.

Frábærasti atburður vikunnar er hins vegar allt, allt of merkilegur til að hann rúmist á netinu og hef ég ekki um hann mörg orð hér. Ég er sem sagt orðinn föðurbróðir. Það er best. Elska þig bróðir, berðu mágkonu minni og frænku minni ást mína.

10 ummæli:

Unknown sagði...

Vælir yfir að enginn sendi þér email nema mamma og svo þegar maður drattast til að senda þér línu er ekki einusinni svarað.

Annars þá skil ég þig afar vel í sambandi við þessa blessuðu geitunga, eru nú meiri ógeðin.


Ari "Jóns"

Finnur Guðmundarson Olguson sagði...

Þú setur náttúrulega ekkert samhengi milli þess að ég hafi ekki svarað og þess að ég hafi verið uppi í fjallahúsi með traktorum í viku.

I'm on it.

Nafnlaus sagði...

Vér höfum aldrei upplifað viðlíka hamingju. Held samt að ég verði enn hamingjusamari þegar ég fæ að hitta hana eftir 24 daga ...

Nafnlaus sagði...

Til hamingju med nyja fjølskyldumeliminn, nuna lidur ekki ad løngu thar til thu verdur ordinn storfrændieins og eg (nema natturulega frænka ;) )
Hulda

Nafnlaus sagði...

Til hamingju!! ;o)

Unknown sagði...

Þú ert klárlega að væntast of mikils af mér þarna :P

Ari "Jóns"

Erla Elíasdóttir sagði...

Til luuukku beibí... og hver veit nema fleiri lumi á viðlíka fréttum!

Nafnlaus sagði...

Til hamingju með að vera orðin föðurbróðir og velkominn í klúbbinn.

Eins gott að þú hafir fengið póstinn frá mér með plöntunni; eucalyptus gunni.....Halló! Eucalyptus GUNNI !!

Nafnlaus sagði...

Listamaður sem einu sinni hét Finnur Guðmundson, viltu gjöra svo vel að blogga aftur svo ég sjái ekki alltaf þessa viiiiiðbjóðslegu geitungamynd þegar ég kem inn á bloggið. Þetta er hroðbjóður.

Sisi sagði...

sammála henni systur þinni..farðu nú að setja einhvera fallegri mynd á þessa síðu þína. Hef ekki tekið eftir neinum erfðabreyttum geitungum í kaliforníu þeir virðast vera í felum. Traktorarnir standa ætíð fyrir sínu en nýfædd flókadóttir er talsvert betra en það.