laugardagur, 22. september 2018

Með barni

Eins og alþjóð veit á ég núna barn. Það er mikið prýðisbarn. Við eign barns líta alls kyns pælingar dagsins ljós sem koma fólki sem ekki eru eigendur barns alla jafna ekki til hugar. Ég hafði til að mynda aldrei pælt í hvað næsta nágrenni er hávært fyrr en ég fór að keyra sofandi barn í vagni þrisvar sinnum á dag.

Barnið á góðri stund.
Við vagnakstur gildir lögmál Murphy's án undantekninga:

1. Ef ekið er framhjá börnum munu þau kalla mjög hátt akkúrat á þeim tímapunkti og/eða vera á skröltandi hlaupahjóli.
2. Ef ekið er framhjá kirkju munu kirkjuklukkur klingja, jafnvel þó engin ástæða virðist til.
3. Ef ekið er framhjá hundi mun hundurinn sjá annan hund, kött eða draug og gelta hátt og snjallt.

Ég ætlaði aldrei að ala barnið upp þannig að það hrykki upp við óvenju háværan andardrátt, en það virðist hafa æxlast þannig einhvern veginn. Nú tek ég sérstaklega vel eftir hvað framkvæmdir eru tíðar í nágrenninu, jafnvel báða helgardagana, og er orðinn töluvert meiri kattamaður en hundamaður. Gangandi vegfarendur sem bjóða góðan daginn gætu fengið illt auga frá mér ef þeim liggur of hátt rómurinn. Að því sögðu hefur barnið sofið nokkuð vel síðan það fæddist, en daglúrarnir geta vissulega styttst töluvert af völdum óheppilega tímasetts hamarshöggs.

Í öllu falli er flest gott að frétta og þá það helst að yðar einlægur er kominn í fæðingarorlof næstu mánuði. Að fyrstu vikunni nú liðinni get ég vitnað um að það er æðislegt. Næst er að plata barnið til að byrja að taka pela og þá höfum við í rauninni enga þörf fyrir Erlu lengur og getum flogið til Buenos Aires hið snarasta. Þar mun ég ala drenginn upp sem tangódansara í fremstu röð, ferðast með hann milli landa og lifa af tekjum hans það sem eftir er. Ekki segja Erlu, tíhí!

föstudagur, 11. ágúst 2017

Ég drakk þrjá Guinnessa og fannst þetta mjög góð hugmynd
So shoot me!
Það var þetta eða að baka og ég held við getum prísað okkur sæl núna yfir að Efstasundið sé enn óbrunnið.

Örfáar hífaðar hugleiðingar:

1. Þegar ég drekk smá bjór, bara smá, þá verð ég svona átta sinnum næmari á alls konar. Ég geri mér reyndar grein fyrir að þetta er akkúrat það sem maðurinn sem er að syngja Nínu á fullu á miðjum Laugarveginum heldur líka - „Ó, já, þetta er nákvæmlega það sem fólk þarf núna“ - en í mínu tilviki þá er eins og ég og raunveruleikinn höfum hreinlega bara einn bjór á milli okkar. Eftir einn kinkum við kolli hvor til annars og skiljum hvor annan. Eftir einn er ég líka með meiri sans en Nínu-gæinn, en samt það lítinn sans að ég hugsa yfirleitt: „Ó, mæ, gad. Ég þarf að hringja í... alla! og segja þeim... mjög mikilvæga hluti! Ég hef til dæmis ekki heyrt í gaurnum sem ég var með í LÍF202 í MJÖG langan tíma“. Þá, án undantekninga, kikkar litli gaurinn inn og segir við mig að nei, ég ætti að rifja upp síðustu tuttugu mínútur eða svo og íhuga þá breytingu sem orðið hefur á almennu lundarfari voru og hvort innbyrt áfengismagn gæti mögulega hafa haft áhrif á það. Málið er hins vegar að, okkar á milli, þá er litli gaurinn aaaalgjör leiðindagæi. Hann segir hluti eins og: „Auðvitað
skilurðu ekki Leonard Cohen betur en allir sem á undan hafa komið“ og: „Ekki senda þetta“. Hann er eiginlega nákvæmlega eins og Finnur á núll bjórum, sem er svolítið eins og Marge Simpson nema varkárari. Hann er með hendur varanlega á mjöðmum og talar um að hætta skuli leik þá hæst hann standi þó að leikurinn sé á pari við krullu áhugalausra. Greyið maðurinn. Hafandi þaggað niður í litla gaurnum get ég tengt að fullu við Leonard Cohen (og alla aðra sem á vegi mínum verða) og skrúfað upp í tilfinninganæmninni sem leiðir að hugleiðingu tvö.

2. Það er slatti af fólki sem ég þekki sem mér finnst ALGJÖRLEGA EINSTAKT og hef aldrei sagt því það. Ennfremur væri það bara óþægilegt og vandræðalegt ef ég gerði það einhvern tíma. Þau verða því bara að deyja án þess að vita það. So it goes...

3. Leonard Cohen hefði þurft að fá einhver, hemm, alþjóðlega viðurkennd verðlaun, hemm, áður en hann dó. Þessi prósi er hyldjúpt dæmi. En nóg um það...4. Er almennt eitthvað minna um ástríðu núna en á árum áður, bæði í listum og daglegu lífi? Ég beini þessu til fólks sem man tímana tvenna. Við þurfum kannski ekki einhverja Sovétríkja- eða hippaskuldbindingu hérna, en getur maður beðið um eitthvað beittara en bragðdaufa rappara að rappa um djammið og að þéna peninga sem, hreinskilnislega sagt, hefur líklega aldrei verið stórt vandamál í lífi þeirra? Meira að segja jafnréttisrappið hefur einhvern H&M-brag á sér. Þó að framkvæmdin beri oft af þá er því ekki að neita að mikið af íslenska rappinu, sem er stór hluti af íslensku tónlistarsenunni í dag, er álíka innistæðulaust og Al Thani. Fólk með tilbúna hardcore sögu, tilbúinn hardcore karakter - fjórum árum síðar mætt í dómarasæti í hverjum þeim arfaslaka tónlistarraunveruleikaþætti sem dagskrárstjórar 365 hafa dregið út úr rassgatinu á sér það misserið og búið að gangast við Garðabæjarraunveruleikanum sem er líf þeirra. Ég get bara ekki dottið inn í þetta.

Skífan sem inniheldur þetta lag finnst mér svo mikið afbragðsdæmi um að velja orðin vel, meitla þau, meina þau, vinna eftir konsepti og halda sig við það:


Texti

Mínímalískur texti, mínímalískt bít, raunveruleg saga. Öll platan er meistarastykki.

Þetta er annað dæmi:

Texti

Gad dem sósjal realismi, maður.

Nóg af hugleiðingum í bili. Litli gaurinn vill ekki að ég fari fram úr mér.

Góðar stundir.

miðvikudagur, 4. júní 2008

Það er komið


I have returned. Svo mun ég hafa samband við ykkur eftir því sem á líður. Engar áhyggjur, nóg af Finnsa fyrir alla.

P.S. Ég finn ekki sim-kortið mitt. Æ, æ.

miðvikudagur, 28. maí 2008

Stutt hugleiðing

Hvernig er mögulegt að lifa í „núinu“ ef maður trúir ekki á það? Ég er þeirrar skoðunar að við hljótum að lifa í minningunni, jafnvel minningunni af atburðum sem gerðust fimm sekúndum fyrr, því við getum aldrei skilið hluti að nokkru leyti án samhengis við tíma og rúm. Þess vegna er ómögulegt fyrir okkur að meta „andartakið“ til fulls, eða jafnvel til nokkurs, á meðan það á sér stað (ef það á sér yfir höfuð stað). Þeir sem segjast lifa í núinu meina eitthvað allt annað, eins og að þeir taki skjótar ákvarðanir án þess að skeyta mikið um framtíðina (sem ég reyndar trúi heldur ekki á) og hvert þær ákvarðanir færi þá. Fyrir mig hafa minningar svo endalaust vald og gildi framyfir hið ósnertanlega nú. Þær hafa kraftinn til að breyta einhverjum skítlegum atburðum í mikilsmetna, sögulega heimild, kraftinn til að finna aftur einhverja gleðiríka tengingu sem maður átti við annað fólk og magna hana upp í hæstu hæðir í ljúfsárri nostalgíu. Nostalgía er einhver áhugaverðasta tilfinning sem fyrirfinnst í fólki, finnst mér. Stundum finn ég fyrir nostalgíu gagnvart hlutum sem áttu sér aldrei stað, en eru einhvers konar bland þess sem ég vildi að hefði gerst og draumkenndra tilfinninga hverra ég hreinlega kann ekki að gera skil, eins og þær hafi beinlínis komið að utan. Þetta vill gerast þegar ég hlusta á tónlist af ýmsum toga og ég hef stundum staðið mig að því að dæma þá tónlist sem ég heyri eftir því hvort hún magnar upp einhver hughrif í mér sem birtast mér sem hálf„guðleg“ (og þetta eru mikilvægar gæsalappir). Af þessum sökum er Sálumessa Mozarts, tónlist Sigurrósar og ýmis lög The Knife mér afskaplega dýrmæt. Það er eitthvað þar sem ég hef enga stjórn á og er algjörlega utan míns sjónarsviðs. Enginn skilningur og í sama mund fullkomin samlíðan. Ég býst við að fólk finni í raun fyrir sams konar hughrifum þegar það verður ástfangið. Þá er ég ástfanginn af tónlist.

laugardagur, 24. maí 2008

Jæja

Nú fer þetta að styttast í annan endann. Reyndar allverulega, því ég hef fest kaup á flugmiða heim þann 1. júní, á sunnudaginn eftir viku. Hildsa er farin heim, strákarnir hafa yfirgefið mig á ný og ég er einn í íbúð sem minnir meira og meira á tómt iðnaðarhúsnæði. Ég vona að strákarnir séu komnir heim núna og hafi ekki lent í einhverjum frekari ævintýrum í London án mín, síðasta vika hefur verið megarosafrábær. Þeir eru líka ástæða þess að ég hef ekki haft samband við þá sem reynt hafa að ná sambandi við mig, en nú verður breyting á.

Ég ætla að skrifa eitthvað seinna um ferðir okkar drengjanna til Carcassonne, Perpignan og Andorra. Á meðan skuluð þið horfa á eftirfarandi mynd.
miðvikudagur, 14. maí 2008

Happy spanish man


Halló, kæra fólk.

Mig langar að búa á Spáni í staðinn fyrir Frakkland. Það var sko frítt tapas með hverjum drykk, fólk var EKKI hranalegt ef maður bað það um vatnsglas, konur í dýrindiskjólum voru dansandi í kringum blómakrossa eins og einhvers konar jákvætt Ku Klux Klan og í morgunmat fær maður djúpsteikt kleinuhringjakennt dót sem maður dýfir í súkkulaði ! Gerist það betra?

Eftir dvöl mína á Spáni fór ég í sveitina í fimm daga þar sem ég var í fullri vinnu við að búa til sement. Ekki alvöru sement eins og alvöru karlmenn búa til, heldur var ég að „búa til sement“ með Sévan (3ja ára). Í sementið fór meðal annars sandur, vatn, sement (!?), kúkur, möl, steinar og bútar af trjám. Fimm daga í röð. Ég hlakka ljóst og leynt til þegar leikirnir byrja að verða aðeins þróaðri, hann fer að vinna betur í persónusköpun og söguþræði og hættir að treysta eins mikið á að moka og henda og hann gerir núna. Samt kvarta ég ekki, ég þurfti alla vega ekki að standa í kringum gamlan bíl og segja „mmm“ eða „mjamm“ í nokkra klukkutíma á dag eins og hinir karlmennirnir. Svo var maturinn alveg exelant.

(Innskot: Þekkir einhver lesandi hestvagnsins muninn á býflugu, hunangsflugu og randaflugu? Hverjar eru af sömu tegund og hver þeirra býr til allt hunangið? Á frönsku er þessu skipt í bourdons, abeilles og svo eru vespur guepes. Françoise segir að les bourdons séu þessar feitu og stóru, geti verið svartar en stundum með rendur, en hunangsflugurnar; les abeilles, séu minni og líkari vespum og þær búi til allt hunangið. Ég hélt alltaf að randaflugur og býflugur væru það sama og þetta byggi allt saman til hunang sem fyndnir birnir væru iðnir við að stela, en nú veit ég ekki hvaðan á mig stendur veðrið.)

Nú bíð ég eftir og býð strákunum heim í hús um leið og þeir standa á franskri jörð í morgunsárið þann 15. maí. Nei, ég er ekki að fá Sveppa, Audda og félaga í heimsókn (HAHAHAHAHAHAHAHAHAHAHAHAHA) heldur samanstanda núnefndir strákar af Jóni Ragnari (The Coroner), Hirti (The Executor) og Skúla (The Flintstones).

Sjáumst á morgun, sætmenni !

Update: Ég fór á vísindavefinn: Býflugur (Apis mellifera) og hunangsflugur (Bombus sp.) eru ættkvíslir í býflugnaættinni (Apidae). Þar sem býflugur lifa ekki villtar á hér á landi má gera ráð fyrir að í mörgum tilfellum eigi fólk í rauninni við hunangsflugur þegar það spyr Vísindavefinn um býflugur. Þannig að það eru engar abeilles á Íslandi, bara bourdons. Athyglisvert, ekki satt?

mánudagur, 12. maí 2008

Meh

Kominn aftur, þið getið vænst blogghreyfingar næstu daga.


Þessi maður er vel útbúinn limbósetti