föstudagur, 11. ágúst 2017

Ég drakk þrjá Guinnessa og fannst þetta mjög góð hugmynd




So shoot me!
Það var þetta eða að baka og ég held við getum prísað okkur sæl núna yfir að Efstasundið sé enn óbrunnið.

Örfáar hífaðar hugleiðingar:

1. Þegar ég drekk smá bjór, bara smá, þá verð ég svona átta sinnum næmari á alls konar. Ég geri mér reyndar grein fyrir að þetta er akkúrat það sem maðurinn sem er að syngja Nínu á fullu á miðjum Laugarveginum heldur líka - „Ó, já, þetta er nákvæmlega það sem fólk þarf núna“ - en í mínu tilviki þá er eins og ég og raunveruleikinn höfum hreinlega bara einn bjór á milli okkar. Eftir einn kinkum við kolli hvor til annars og skiljum hvor annan. Eftir einn er ég líka með meiri sans en Nínu-gæinn, en samt það lítinn sans að ég hugsa yfirleitt: „Ó, mæ, gad. Ég þarf að hringja í... alla! og segja þeim... mjög mikilvæga hluti! Ég hef til dæmis ekki heyrt í gaurnum sem ég var með í LÍF202 í MJÖG langan tíma“. Þá, án undantekninga, kikkar litli gaurinn inn og segir við mig að nei, ég ætti að rifja upp síðustu tuttugu mínútur eða svo og íhuga þá breytingu sem orðið hefur á almennu lundarfari voru og hvort innbyrt áfengismagn gæti mögulega hafa haft áhrif á það. Málið er hins vegar að, okkar á milli, þá er litli gaurinn aaaalgjör leiðindagæi. Hann segir hluti eins og: „Auðvitað
skilurðu ekki Leonard Cohen betur en allir sem á undan hafa komið“ og: „Ekki senda þetta“. Hann er eiginlega nákvæmlega eins og Finnur á núll bjórum, sem er svolítið eins og Marge Simpson nema varkárari. Hann er með hendur varanlega á mjöðmum og talar um að hætta skuli leik þá hæst hann standi þó að leikurinn sé á pari við krullu áhugalausra. Greyið maðurinn. Hafandi þaggað niður í litla gaurnum get ég tengt að fullu við Leonard Cohen (og alla aðra sem á vegi mínum verða) og skrúfað upp í tilfinninganæmninni sem leiðir að hugleiðingu tvö.

2. Það er slatti af fólki sem ég þekki sem mér finnst ALGJÖRLEGA EINSTAKT og hef aldrei sagt því það. Ennfremur væri það bara óþægilegt og vandræðalegt ef ég gerði það einhvern tíma. Þau verða því bara að deyja án þess að vita það. So it goes...

3. Leonard Cohen hefði þurft að fá einhver, hemm, alþjóðlega viðurkennd verðlaun, hemm, áður en hann dó. Þessi prósi er hyldjúpt dæmi. En nóg um það...



4. Er almennt eitthvað minna um ástríðu núna en á árum áður, bæði í listum og daglegu lífi? Ég beini þessu til fólks sem man tímana tvenna. Við þurfum kannski ekki einhverja Sovétríkja- eða hippaskuldbindingu hérna, en getur maður beðið um eitthvað beittara en bragðdaufa rappara að rappa um djammið og að þéna peninga sem, hreinskilnislega sagt, hefur líklega aldrei verið stórt vandamál í lífi þeirra? Meira að segja jafnréttisrappið hefur einhvern H&M-brag á sér. Þó að framkvæmdin beri oft af þá er því ekki að neita að mikið af íslenska rappinu, sem er stór hluti af íslensku tónlistarsenunni í dag, er álíka innistæðulaust og Al Thani. Fólk með tilbúna hardcore sögu, tilbúinn hardcore karakter - fjórum árum síðar mætt í dómarasæti í hverjum þeim arfaslaka tónlistarraunveruleikaþætti sem dagskrárstjórar 365 hafa dregið út úr rassgatinu á sér það misserið og búið að gangast við Garðabæjarraunveruleikanum sem er líf þeirra. Ég get bara ekki dottið inn í þetta.

Skífan sem inniheldur þetta lag finnst mér svo mikið afbragðsdæmi um að velja orðin vel, meitla þau, meina þau, vinna eftir konsepti og halda sig við það:


Texti

Mínímalískur texti, mínímalískt bít, raunveruleg saga. Öll platan er meistarastykki.

Þetta er annað dæmi:

Texti

Gad dem sósjal realismi, maður.

Nóg af hugleiðingum í bili. Litli gaurinn vill ekki að ég fari fram úr mér.

Góðar stundir.

Engin ummæli: