laugardagur, 22. september 2018

Með barni

Eins og alþjóð veit á ég núna barn. Það er mikið prýðisbarn. Við eign barns líta alls kyns pælingar dagsins ljós sem koma fólki sem ekki eru eigendur barns alla jafna ekki til hugar. Ég hafði til að mynda aldrei pælt í hvað næsta nágrenni er hávært fyrr en ég fór að keyra sofandi barn í vagni þrisvar sinnum á dag.

Barnið á góðri stund.
Við vagnakstur gildir lögmál Murphy's án undantekninga:

1. Ef ekið er framhjá börnum munu þau kalla mjög hátt akkúrat á þeim tímapunkti og/eða vera á skröltandi hlaupahjóli.
2. Ef ekið er framhjá kirkju munu kirkjuklukkur klingja, jafnvel þó engin ástæða virðist til.
3. Ef ekið er framhjá hundi mun hundurinn sjá annan hund, kött eða draug og gelta hátt og snjallt.

Ég ætlaði aldrei að ala barnið upp þannig að það hrykki upp við óvenju háværan andardrátt, en það virðist hafa æxlast þannig einhvern veginn. Nú tek ég sérstaklega vel eftir hvað framkvæmdir eru tíðar í nágrenninu, jafnvel báða helgardagana, og er orðinn töluvert meiri kattamaður en hundamaður. Gangandi vegfarendur sem bjóða góðan daginn gætu fengið illt auga frá mér ef þeim liggur of hátt rómurinn. Að því sögðu hefur barnið sofið nokkuð vel síðan það fæddist, en daglúrarnir geta vissulega styttst töluvert af völdum óheppilega tímasetts hamarshöggs.

Í öllu falli er flest gott að frétta og þá það helst að yðar einlægur er kominn í fæðingarorlof næstu mánuði. Að fyrstu vikunni nú liðinni get ég vitnað um að það er æðislegt. Næst er að plata barnið til að byrja að taka pela og þá höfum við í rauninni enga þörf fyrir Erlu lengur og getum flogið til Buenos Aires hið snarasta. Þar mun ég ala drenginn upp sem tangódansara í fremstu röð, ferðast með hann milli landa og lifa af tekjum hans það sem eftir er. Ekki segja Erlu, tíhí!

Engin ummæli: