þriðjudagur, 20. nóvember 2007


Já, ég hef fátt að gera. Hæðið mig.

Ég hef fest kaup á peysunni og skeggi: takk fyrir vinsamleg tilmæli, Vera. Skeggið er reyndar ekki til þess gert að láta mig líta út eldri en ég er, heldur líta út eins og einhver sem er að reyna að líta út eldri en hann er, á meðan hann er í raun á þeim aldri sem hann vill líta út fyrir að vera. Þetta er margrætt skegg.

Vegna fjölda áskorana mun ég nú tíunda ástæður mótmælanna. Núverandi ríkisstjórn Frakklands hefur, eins og flestar fyrrverandi ríkisstjórnir, tekið stór frjálshyggjuskref í áttina að einkavæðingu alls, þar á meðal skólakerfisins. Stór hluti nemenda, og sennilega kennara líka, er ekki sáttur við þetta. Nú síðast fyllti það mælinn að ríkisstjórnin lagði til frumvarp um lög þess efnis að frönskum háskólum yrði í sjálfsvald sett hversu há skólagjöld þeir settu nemendum og sjá nemendur eðlilega fram á himinhá skólagjöld, í takt við t.d. Bretland, með það í för með sér að verst settu nemendurnir myndu ekki hafa efni á að mennta sig til jafns við betur setta nemendur. Í Frakklandi er það af mörgum talið slæmt, öfugt við heima þar sem margir sjá bara gleði í því að gera nám að söluvöru sem seld skal hæstbjóðanda og setja þannig val á námi á sama stall og val á mismunandi tegundum af mjólk. Nicolas Sarkozy, forseti Frakklands, er ekki vinsæll meðal nemenda (vegna þess að hann er fasistafrjálshyggjutækifærissinni).

En nóg um það. Mig langaði líka að deila með fólki kaupum mínum á hinu ótrúlega nördalega blaði Philosophie-magazine. Um er að ræða hálfsmánaðarútgáfu eingöngu tileinkaða heimspeki og það fyndna er að blaðið er af nákvæmlega sama sniði og Cosmopolitan og þess háttar glamúrblöð. Á forsíðu þessa tiltekna tölublaðs er flennistór mynd af Manu Chao, sem tókst að draga fram gamla heimspekikennarann sinn og fá hann í viðtal. Opnustúlkan þetta sinnið er David Hume, heimspekingur frá 18. öld, sem fær sex blaðsíður í miðju blaðsins helgaðar sér: Hume: Reynslan ofar öllu. Ég sá ósjálfrátt fyrir mér myndir af honum hlæjandi í laufblaðarigningu einhvers almenningsgarðs, eða sitjandi á bekk starandi út í eilífðina yfir persónulegri millifyrirsögn: „Þegar Walter dó missti ég áhugann á heimspekinni og varð að taka nokkur ár í að hugsa. Bara hugsa.“ Þið vitið, svona í anda klassískra opnuviðtala við einhvern frægan sem segir frá móðurmissi eða dópneyslu. Nema bara heimspekingur frá 18. öld. HAHAHA! Kannski ég hefði ekki átt að skrifa þessa málsgrein...

Ég mun halda ykkur heitum í peysu-og skeggmálum. Annars má Rúnar skammast sín fyrir að hafa ekki haft samband. Staða besta vinar hefur opnast og án þess að fella nokkra dóma verður þessi maður að teljast líklegastur til að fylla hana:

10 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ég var einu sinni með skegg sem var þeirrar náttúru að ég leit út eins og maður sem vill láta líta á sig sem mann sem vill virðast aðeins eldri en hann er. Þetta gerði ég auvitað til að undristrika raunverulegan aldur.

Nafnlaus sagði...

Flóki, ég geri fastlega ráð fyrir að þú eigir við hið alræmda "Mexíkóskegg". Finnur, ég mana þig að safna þannig skeggi. Og lita það svart.

Erla Elíasdóttir sagði...

ugh.. ekki alls fyrir löngu sá ég haft eftir einhverjum frelsaranum hér heima þá skoðun, að auðvitað skilaði það mestu til allra að háskólakennarar litu á nemendur sína sem VIÐSKIPTAVINI. Þóttist sá hafa slæma reynslu af hysknum kennurum sem nenntu varla að mæta í tíma, enda kæmi slíkt ekki niður á kjörum þeirra, og sóuðu þannig dýrmætum tíma nemenda sinna. Það mætti kannski reyna að hækka launin fyrst?

Nafnlaus sagði...

Hvar er betra að borða; Le Fil eða Planéte Moule ?

Nafnlaus sagði...

Shit, einhver hefur unnið heimavinnuna sína. Komdu í heimsókn og við skulum prófa þessa staði. Le Fil er reyndar alltaf lokaður.

Sisi sagði...

sammála sölku, litaðu það svart..gæti verið ansi skondið, sérstaklega með alpahúfunni, nýju peysunni og og kvennmannssígarettu, löngu brauði og öllum staðaímyndum sem til eru um frakkland..

Nafnlaus sagði...

Ég held að svart "Mexíkóskegg" færi manninum sem þú ert orðinn (eða ertu búinn að vera hann) vel. Sjatterar vel við húfuna.

astarmafian sagði...

Skegg á Finni er svoldið eins og Frakkland; það ER þarna, en það GERIR ekki neitt...

Vera sagði...

Opnaði ég eitthvað box? Af hverju hefur fólk svona miklar skoðanir á skeggi? Á ég að gæta bróður míns?

Nafnlaus sagði...

Þú mátt allavega alveg reyna að gæta bróður MÍNS, það hefur ekki gengið vel hjá mér hingað til eins og skeggvöxtur þeirra beggja sannar.