föstudagur, 16. nóvember 2007
Pressan
Það er byrjað. Pöpullinn er kominn á bragðið og vill meira. Ég hef náttúrulega fullkominn skilning á því hvernig greinar mínar um mig labbandi niður stiga eða þvoandi (er þetta rétt?) þvott, hafa orðið nokkurs konar hápunktur vikunnar fyrir ykkur. Nú neyðist ég til að koma með eitthvað ferskt í hvert einasta sinn til að halda athygli ykkar; samband okkar er orðið að hinu spennuhlaðna sambandi fjöldans og stjörnunnar: ég höndla varla pressuna, en vil ekki glata aðdáuninni. Fæðing barns var ekki nóg fyrir ykkur, nei, nú hafið þið séð tilfinningasemi og kallið á spennu. Og mynd af nýju dýri.
Skólinn er í „verkfalli“ eins og stendur. Við Hildur ætlum að fara á morgun og festa á mynd upphlöðnu stólana og borðin sem hindra aðgang að hverri einustu byggingu innan háskólalóðarinnar. Þessi vígi eru ansi myndarleg. Verra er að einhverjir lúðar hafa gengið berserksgang með úðabrúsa og reynt að teikna Che Guevara, hamar og sigð á hvern vegg, ásamt slagorðum eins og: Byltingu núna! Það er eiginlega hálfvandræðalegt fyrir þá sem standa fyrir verkfallinu, sem á sannarlega rétt á sér, en tengist þessum áletrunum ekkert. Það er talað um að þetta muni standa yfir í átta daga, eða þar til á þriðjudaginn í næstu viku, en svona dæmi getur víst teygst og styst án mikils fyrirvara. Bókasafnið er samt opið og mér fannst það frekar gott „touch“: fólk kemst kannski ekki í tíma, EN EKKERT STÖÐVAR ÞEKKINGARLEITINA! HÚN ER HINN ÆÐRI MÁTTUR! LÚTIÐ HENNI OG FÆRIÐ HENNI FÓRNIR! ...og svo framvegis. Ég er alla vega búinn að læra fullt, til dæmis hvað syndicaliste er, hvað s'organiser mieux pour lutter mieux þýðir og fyrir hvað A.G. stendur.
En svo við minnumst á bókasöfn, þá verð ég að lýsa ánægju minni með frönsk bókasöfn. Í fyrsta lagi eru fleiri bækur þar en tölvur, sem er skemmtilegt að sjá. Það er reyndar svo óendanlega mikið af bókum að maður er fylltur fræðilegum þorsta og löngun til að lesa þær allar (nema kannski allar þessar management-bækur). Frakkar virðast hafa skilið að fólk hefur ekki þörf fyrir að sitja í stólum eftir frægan hollenskan hönnuð við teflon-húðað plastborð til þess að lesa bækur. Þetta er eins og að vera staddur inni í internetinu: allar þær upplýsingar og leiðbeiningar sem þú girnist, en þú þarft að ganga og leita til að finna þær, sem mér finnst betra en hitt. Þeir eru meira að segja með gamla handskrifaða spjaldskrá (auk tölvukerfis)!
Svo að bókasafnið fær ágætis einkunn.
Bless á meðan.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
7 ummæli:
Múgurinn kallar á spennu og þú gefur þeim lýsingu af bókasafninu þínu??
Þetta er bókasafnið mitt, reyndu að slá það út: http://upload.wikimedia.org/wikipedia/commons/thumb/e/e4/Mitchell_library.jpg/800px-Mitchell_library.jpg
Þetta er föstudagskvöld í Guðmundsson-fjölskyldunni: systkinin metast um bókasöfn.
Guðmundarson-Olguson-fjölskyldunni, þökk sé þér.
Eru hillurnar svo háar að maður þarf stiga á hjólum til að ná til þeirra?
Það slær ekkert út sólheimasafnið takk fyrir Herra Finnur...
Ari"Jóns"
það er víst líka verkfall í hollywood..þó ekki nein bylting, bara ríkir kallar að pirrast yfir öðrum ríkum köllum. Ég sit og bíð eftir bréfi kæri minn.
Skrifa ummæli