þriðjudagur, 4. desember 2007

Eu sou um estudiante


Fólk sem hefur haft áhyggjur af mér um árabil getur sofið rólegt í nótt því ég verð eflaust greindur með eitthvað á morgun. Ég mun leggja leið mína til Jeanne, sem er í Master 2 í taugasálfræði, og taka klukkutíma sálfræðipróf. Þrátt fyrir að þetta sé nú meira fyrir hana, þá er ég hræddur um að útkoman verði vægast sagt óhugnanleg ef ég tek með í reikninginn allar þær samræður sem ég hef átt við sjálfan mig, jafnvel rifrildi, síðan Hildur yfirgaf mig.

Þetta er sem sagt um það bil það eina sem ég hef að gera á morgun því skólinn er, já, ennþá lokaður. Svæðið var reyndar opnað um daginn og þar sem nemendur voru hræddir um að því yrði lokað aftur ef þeir blokkuðu byggingarnar með stólavígum eins og þeir gerðu fyrst, þá standa nú verkfallsverðir vörð um hvern einasta inngang og hleypa engum inn nema kennurum og skrifstofufólki. Ég hugsaði reyndar með mér að ég væri ómögulegur í slíkt starf, því ég er svo óendanlega hræddur við átök, sem leiddi síðan til þess að ég lærði að meta algjörlega upp á nýtt alla þá sem neituðu að hlýða kennurunum í barna-og menntaskóla, þar sem ég get næstum ábyrgst að nemendahreyfingin dæi innan mánaðar ef akkúrat svoleiðis fólk neitaði ekki að hlýða, akkúrat núna. Það gefur kannski ákveðna hugmynd um ástæður dugleysis hinna hlýðnu Íslendinga í þessum málum; okkar óhlýðna fólk nær því miður sjaldnast alla leið í háskólann.

Reyndar held ég líka að við Íslendingar, séum oftast hrædd við að verða okkur að athlægi ef efnt er til mótmæla; það eigi enginn eftir að mæta eða fáir. Hins vegar er fáránlegt að hugsa þannig. Tökum Frakka til dæmis: ég fór í mótmælagöngu í dag með ekki meira en þúsund manns. Það voru þannig u.þ.b. 1 af hverjum 60.000 Frökkum í þessari göngu: það er sambærilegt við að fimm manns mæti heima á Íslandi. Hlutfallslega. Fólk getur þess vegna verið ansi ánægt með 10 manna mótmæli. Hlutfallslega.

Ég slysaðist reyndar eiginlega í þessi mótmæli. Ég var á leið á bókasafnið í sporvagninum (eða sem sagt að ferðast í sporvagninum á bókasafnið sem er ekki staðsett í sporvagni) þegar ég sá milljón manns labbandi upp götu undir stórum borða. Ég var að sjálfsögðu ekki lengi að stökkva út og ná þeim. Þar uppgötvaði ég reyndar að borðinn var einhvers konar jólaauglýsing fyrir borgina, en mér hafði ekki missýnst algjörlega því efst á hæðinni voru fyrrnefnd þúsundmenni saman komin. Ég var bara: YEAH! Loksins smá aksjón! og við byrjuðum að labba. Ég hitti strák sem er með mér í heimspeki og skildi síðan við hann eftir stutt spjall. Ég var í þvílíku stuði þar til ég fór að taka eftir að flestir voru frekar ungir í göngunni og maðurinn sem var að hrópa í gjallarhornið var svona 15 ára og var klæddur í tískulegri föt en Ari Hlynur í 8. bekk. Svo hitti ég kunningja minn aftur og hann útskýrði fyrir mér að þetta væru menntaskólanemar (15-18 ára) sem hefðu gengið til liðs við nemendahreyfinguna. Það dró örlítið úr fyrrnefndu stuði. Einhverjir stúdentar voru þó meðal göngufólks og þegar var komið inn á Comédie-torg hlýddu allir á eldri ungan mann sem hafði tekið yfir gjallarhornið og sprengdu reyksprengjur í mestu rósemd.

Ég hef lítið að gera annað en að læra og skreppa á kaffihús, sem er kannski alls ekki svo slæmt.

Ég í mótmælum gegn of miklum skógi fyrir nokkrum misserum

14 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Það var lagið! Ég hef án djóks verið að refresha þessa síðu 4-5x á dag í próflestrinum. Ég skora á þig að uppfæra hana sambærilega oft.

Svo máttu svara tölvupóstinum mínum.

Atli Sig sagði...

Er þetta heilinn þinn á efstu myndinni?

Mikið ertu huggulegur á neðri myndinni, var þetta þegar þú varst í boy bandinu?

Nafnlaus sagði...

sæll elskan, gunnar vinur þinn hér. farinn að sakna þín pínu, endilega sendu mér almennilegt bréf á mailið. nenni þessu ekki.

Finnur Guðmundarson Olguson sagði...
Þessi ummæli hafa verið fjarlægð af höfundi.
Finnur Guðmundarson Olguson sagði...

Rúnar: Haltu hestunum þínum.
Atli: Já, þetta er heilinn minn og eins og þú sérð þá er hann ekki ánægður.

Erla Elíasdóttir sagði...

Sammála fyrsta ræðumanni! nema að ég hef ekkert sent þér tölvupóst... en á þó frátekna kaffistund með þér innan skamms, hlakka heilan óskapnað til að sjá þig

Vera sagði...

Ertu farinn að æfa Tennis? En gaman fyrir þig! Ég man þegar unglingarnir í Aix, hugðust herma eftir gáfuðu stúdentunum og mótmæla CPE lagasetningunni ... það fór allt í vitleysu ... kveiktu í ruslafötum, háðu rappstríð, breikstríð eða bæði sem endaði svo í slagsmálum þeirra á milli. Lögreglan átti fullt í fangi með að bjarga þeim frá þeim sjálfum ... kids maður.

Sisi sagði...

mikið ertu photogensíkur bara eins og pro módel líka heilinn. Hildur farinn? hvað gerðir þú?

Unknown sagði...

unaðslega dýr.. mátt bara velja hvort etta er skrifað til þín eða dýrsins á myndini. ^^

Ari"Jóns"

Nafnlaus sagði...

Eru þetta jólastuttbuxurnar á myndinni? Skæslegar.

Nafnlaus sagði...

það hefur greinilega haft svona líka góð áhrif á þig að ég fór...hvað er mikið eftir af barnum???
sakna þín,Rauðhattagötu,bakarímannsins,
rauðvínsins,sólarinnar og alls hins alveg fáránlega mikið!!!

Unknown sagði...

Nýjustu fregnir herma að 104 Bowling club hafi unnið 3 leiki af 3 í gær og séu nú komnir í blússandi topbaráttu. !!

Ari"Jóns"

astarmafian sagði...

Þetta er myndin sem Finnur sendi inn þegar hann sótti um í Rollingana. Eða var það Skóla-gengið? Æi, eitthvað mjög vandræðalegt allavega.

Nafnlaus sagði...

Þetta er mynd af þér ef foreldrar þínir væru í snekkjuklúbb.