föstudagur, 28. september 2007

Aaaarg, vinur minn er Sjálfstæðismaður!

Finnst mér nú heldur vera farið að þrengja að manni. Ég á núna ekki bara einn vin í stjórn Heimdallar, heldur tvo; góðvinur minn og sampenni á Dindli, Halldór Armand (héðan af kallaður Boston) var sjálfkrafa kjörinn (þýðir sjálfkjörinn ekki að fólk hafi sjálft skipað sig í embætti?) á landsfundi flokksins um daginn, ásamt mínum elsta vini Rúnari (héðan af kallaður Mölbrjótur) sem nú tekst á við annað tímabil sitt í stjórn. Ég vildi að ég gæti óskað þeim til hamingju, en þeir vita sjálfir hversu mikið fagnaðarefni ég tel þetta.

Það er ekki það að ég skipi vinum mínum í flokk óvina um leið og þeir gangast auðvaldinu á hendur, eins og sjá má á löngum vinskap okkar Mölbrjóts, alls ekki, en ég minni Boston á hans eigin grein um flokkadrætti ungs fólks og hversu slæmt það er að fólk geti kallað sig Sjálfstæðismenn eða Vinstri-græna um tvítugt eða jafnvel fyrr. Aðrar leiðir eru fyrir hendi að framfylgja skoðunum sínum og að mínu mati þrengir stjórnmálaflokkur óneitanlega að FRELSINU til að athafna sig og vera róttækur ungur asni. Fyrir utan að mér finnst ungt fólk í stjórnmálastarfi gera lítið annað þessa dagana en að veita sínum eigin flokki hið sívinsæla „aðhald“, sem mér finnst bara vera annað orð yfir gagnrýni sem vantar allan kraft í. Maður þarf alla vega að vera alvarlega ástfanginn af stjórnmálamönnum ef maður vill veita þeim „aðhald“, en ekki bara gagnrýna þá án þess að vera háður þeim. Boston hefur sjálfur upp velæfða raust sína á hinu sjálfumglaða frelsi.is og gagnrýnir að Sjálfstæðisflokkurinn hafi ekki komist lengra á 16 árum í stjórn í baráttu sinni gegn „forræðishyggju" og höftum. Tjah, maður spyr sig. Og spyr sig síðan hvers vegna menn vilja þá ganga í flokkinn sem þeir viðurkenna að hafi ekki staðið sig í 16 ár.

En jæja, þetta voru nú bara svona hugleiðingar. Ég er að reyna að vera duglegur að lesa og gengur frekar hægt, samt hraðar með hverjum deginum. Ég trúi því að lestur æfi tungumálið mest á eftir því að tala og þar sem allir vita hversu mikið ég tala, þá er lestur sennilega mitt öflugasta vopn. Var annars að lesa rosalegan kafla í Ríkinu í gær um „hinn spillta náttúrulega heimspeking“ þar sem Platon leggur Sókratesi í munn þvílíka ofurræðu um hvernig fólk sem hefur alla burði til að verða öflugir heimspekingar fórna sannleiksástinni til að hrífa menn með göróttum orðum sjálfum sér í hag, ef þeir lenda í þannig umhverfi að slíkt sé talið dygðugt. Sjá stjórnmálastarf.

Ást til allra.
Alfons.

12 ummæli:

Nafnlaus sagði...

En Finnur, ungt sjálfstæðisfólk er svo uppfullt af hugsjónum! Það berst fyrir alls konar málefnum, allt frá launa- og skattaleynd til lögleiðingar fíkniefna og vændis. Þú ættir að líta í eigin barm og taka upp sverð og skjöld, frelsi einstaklingsins til varnar. Þ.e.a.s. frelsi hvíta, vel stæða, vestræna einstaklingsins ... frelsi er jú vandmeðfarið.

Kannski gætirðu slegist í lið með Samfó og reynt að drepa íslenskuna, ef Heimdellingar eru þér ekki að skapi.

Ég á EINN sjálfstæðisvin. Það er téður Rúnar Ingi. Þú virðist hanga með fjölbreyttari þjóðfélagshópum en ég. Þori samt að veðja að þú þekkir engan í Framsókn.

Finnur Guðmundarson Olguson sagði...

Jú, Harald Ólafsson, mannfræðiprófessor.

Nafnlaus sagði...

Hah! Touché.

Eini vinur minn sem hefur verið bendlaður við Framsókn er Jón Gunnar, en mig minnir að Oddný hafið komið þeirri kjaftasögu á kreik uppi í háskóla að hann kysi Framsókn ... segir allt um þann flokk að hann sé notaður til að hrekkja fólk.

Nafnlaus sagði...

Hahahaha. Er einhver að lesa þetta?

OlgaMC sagði...

ég hef oft reynt að ímynda mér hvernig væri að eiga sjálfstæðismann sem vin, ég bara sé það ekki gerast. þetta hlýtur að stinga þig beint í hjartað.

Nafnlaus sagði...

Í smástund hélt ég að þetta væri Olga Guðrún að kommenta þarna og brá lítillega.

Þetta með Jón Gunnar er mjög fyndið og minnir dálítið á þegar téður Finnur var bendlaður við að vera í Rokklingunum.

En já, að sjálfsögðu er ég að lesa þetta og auðvitað eru þetta eru ekki slæmar fréttir heldur þvert á móti. Fólk áttar sig þegar fram líða stundir rétt eins og þegar menn tóku gsm símann í sátt og byrjuðu að blogga.

Nafnlaus sagði...

Í smástund hélt ég að þetta væri Olga Guðrún að kommenta þarna og brá lítillega.

Þetta með Jón Gunnar er mjög fyndið og minnir dálítið á þegar téður Finnur var bendlaður við að vera í Rokklingunum.

En já, að sjálfsögðu er ég að lesa þetta og auðvitað eru þetta eru ekki slæmar fréttir heldur þvert á móti. Fólk áttar sig þegar fram líða stundir rétt eins og þegar menn tóku gsm símann í sátt og byrjuðu að blogga.

Salka Guðmundsdóttir sagði...

Þetta minnir líka á þegar Sunna var bendluð við að hafa komið fram í myndbandinu við lagið alræmda "Skólarapp" ...

Unknown sagði...

Þetta minnir mig á þegar ég var bendlaður við morðið á Olof Palme.

Finnur Guðmundarson Olguson sagði...

Þetta eru allt mjög góðar minningar, gott fólk, en Rúnar, er ekki nóg að setja inn eina athugasemd í einu? Hvað er málið? Kanntu ekki á þetta?

Nafnlaus sagði...

Ég hef bara mitt frelsi til athafna.

Nafnlaus sagði...

Ég hef bara mitt frelsi til athafna.