Ég er að sækja í mig veðrið, það er alveg ljóst. Í dag var stressdagurinn mikli, einn af 1500 í mínu stressaða lífi; dagurinn sem ég þurfti að flytja fyrsta verkefnið mitt munnlega fyrir framan allt fyrsta árið í heimspeki. Ég eyði spennunni hér með með því að tilkynna að það gekk vel, mér til svo mikils léttis að ég sofnaði næstum því standandi í spennufallinu sem fylgdi, sem var merkilegt því ég hafði ekkert borðað, en drukkið um það bil sex könnur af kaffi. Þetta var að vísu eins ómerkilegt verkefni og hægt er að setja fyrir, en ef menn eru Finnur G. Olguson þá verða menn álíka stressaðir og elding á þreföldum espresso sama hversu ömurlegt verkefnið er. Ég vil þakka Jeanne, kærustu skiptinemabróður míns, fyrir tilsögn þrátt fyrir veikindi, mömmu fyrir gott símtal kvöldið áður (ótengt verkefninu, ég er ekki algjör aumingi) og Vidda fyrir að vera til staðar sama hvað gengur á.
Hamingjuóskir fær didda fyrir að ljúka meistaranum með láði og legi. Það eru svona fimm manns sem lesa þetta, Salka, þannig að ég vona að þú fyrirgefir opinbera tilkynningu mína.
Annars er lífið á stöðugum basis, við Hildur erum búin að kynnast fallegum manni sem kom í mat í kvöld, ekki til þess að hitta Finn, ef þið skiljið hvað ég á við. Jeanne leit líka við og borðaði, ég er að spá í að fara ásamt henni, Françoise og Robert í stutta ferð upp í sveitahús minnar gömlu skiptinemafjölskyldu í vikufríinu í lok þessa mánaðar. Kannski fæ ég að sjá hinn sískemmtilega og gjörsamlega ofvirka Sévan í leiðinni, mér til mikillar ánægju. Sveitin og Sévan eru fáránlega gott kombó.
Húsið má sjá hér:
Sévan má sjá hér:
Vidda má sjá hér:
þriðjudagur, 9. október 2007
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
5 ummæli:
Bravó fyrir þér, elsku karlinn minn, þú ert sannkölluð hetja bæði á íslensku og frönsku! Næst ættirðu samt kannski að drekka aðeins færri lítra af kaffi svo þú fáir ekki hjartaáfall af stressi í miðjum ræðuhöldum. En auðvitað hefur hver sinn stíl. - Ég fékk hræðilega stórt og ljótt samviskubit þegar ég sá myndina af Vidda og hugsaði um bréfið hans sem er búið að liggja á borðinu hér niðri í gangi í óratíma. Viddi minn, ef þú lest þetta þá kem ég bréfinu til þín um leið og fært verður milli gatna hér í hverfinu fyrir hmm... óveðri? Snjókomu? Leti? Gleymsku? Fyrirgefðu, Finnsi minn, ég lofa að ganga í málið á morgun. - Rosalega líst mér vel á að þú farir í sveitaferð með fjölskyldunni. Og mér líst líka mjög vel á að Hildur sé farin að halda matarboð fyrir fallega menn! Kossar til ykkar beggja.
Ég þakka opinberar hamingjuóskir! Og gott símtal í gær.
Hvað er Ben Stiller að gera með Sévan?
Hæ(ni)! Sjaldan sér maður blogg þar sem flest öll kommentin eru frá móður og systur viðkomandi. Hressandi er það eina sem ég er að segja. Einnig sé ég ekkert að því að hringja í mömmu sína þegar maður er stressaður (nú myndi heyrast stefið þegar eitthvað mistekst í teiknimyndum).
Anyways. Þú sagðir mér frá einhverjum hundi þarna upp í fjöllum sem var eins og ísbjörn sem þú sást þegar þú varst skiptinemi þarna. Ef þú ert að fara þangað nenniru þá að ná mynd af honum og senda mér ?
Já, ég mun ná hundinum og senda þér hann.
ekki gleyma að telja mig með þrátt fyrir getuleysi við að kvitta undir lestur...babycakes.
Skrifa ummæli