föstudagur, 9. nóvember 2007
Bi.is
Heiló.
Vegna fjölda áskorana hef ég ákveðið að setja inn nýja grein um biluðu íkornaskemmtisiglinguna sem er líf mitt, aðallega til að færa asíska risageitunginn niður um stall, þar eð hann hefur eigi brætt hjörtu lesenda. Sem er ótrúlegt.
Lífið hefur verið endalaust fjör síðan ég kom heim úr sveitinni, maður sem þóttist ætla að lesa á mælana reyndist vera verkefni fyrir skólann sem sló mig í framan með tusku bleyttri upp úr vanrækslu og svo svaf ég í nokkra tíma eina nóttina. Ég er eiginlega hræddur um að blogger.com eyði síðunni minni: „Nei, nei, líf þitt er of rólegt og hvar eru djammmyndirnar?? Við getum því miður ekki haldið úti þessari síðu.“
Setur einhver annar upp svip þegar talað er um að „halda úti“ netsíðu? Svolítið eins og þennan:
Og þegar menn tala um þessar endalausu „færslur“ sem þeir skrifa? Dsjís.
Alla vega, ég er kominn út fyrir efnið. Sem var? Ha? Já, ég lagði mig sem sagt fram við lærdóminn í þessari viku og það var ROSALEGT! Ég fann fyrir þessu sem aðrir finna sennilega fyrir á hverjum degi; metnaði, eða eitthvað. Ég skilaði ekki nema einum degi of seint. Púslin eru virkilega farin að finna sinn stað í 9.000.000 bita púslinu af hænu verpandi kúluhatti, sem er líf mitt. Núna, í skólanum, líður mér samt svolítið eins og fólkinu sem varð eftir í dönskutíma þegar ég og flestir bekkjarfélagar mínir stormuðum út í 10. bekk til að mótmæla því að það ætti að reka Ívar út. Ég er Gunni míns tíma! (Þeim sem vita ekki hver téður Gunni er, er bent á þessa síðu: Hinn magnþrungni Gunni...) En af hverju líður mér eins og Svína? Af því að aðrir syndikalistanemendur skólans míns eru í þessum töluðum orðum að plana hvenær (ekki hvort) þeir ætla að taka yfir skólasvæðið, meina nemendum og kennurum aðgang, brjótandi og bramlandi ýmislegt í leiðinni. Nemendur hafa sem sagt fengið upp í kok af einkavæðingatilraunum stjórnmálamanna og ætla að take it to the streets. Það er bara verst að fimmtán mismunandi anarkistahópar eiga erfitt með að koma sér saman um nokkurn hlut og þess vegna hefur leiðin til samþykktar verið sú að málfundir eru haldnir í svo langan tíma, upp í átta tíma, að allir sem mótmæla eru löngu gengnir út þegar niðurstöðu fundarins er náð. Það er ekki einu sinni sovéskt, meira að segja Stalín hefði sagt: „HEY! Sum okkar þurfa að pissa, ókei?“ Mér líður sem sagt eins og Skinka því ég verð einn af þeim nemendum sem þarf að vísa burt þegar örlagastundin kemur, því ég er aldrei alveg með á nótunum hvað er að gerast, sökum tungumála-og menningarvandamála. Þess vegna mun ég kinka kolli og brosa og labba burt og þegar löggan kemur mun ég láta eins og ég sé einhverfur þvottapoki og tengist þessu fólki ekki neitt. Dæmið mig eins og þið viljið.
Bróðir minn hefur fætt yndislegt stúlkubarn og mun upplýsa fólk um nafnið við hátíðlega athöfn í íþróttahúsi Seltjarnarness, seinni part þess 17. þessa mánaðar.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
11 ummæli:
Hahah djös snilld, svo er engin svíni lengur. Bara "Félagsmeistari" :D
Annars er tíminn milli jóla og nýárs gríðarlega góður tími til að taka sig á í að púzzla. ^^
Þá er hægt að plata fjölskyldu og vini til að taka þátt!
Svo máttu taka einn eða svo af þessum hópum með þér hingað og fá þá til að halda námskeið fyrir íslendinga um hvernig eigi að koma í veg fyrir að maður sé tekinn í %$&%$ án þess að segja eitt aukatekið orð aftur og aftur af þeim sem eru búnir að sölsa allt og alla undir sig.
Ari"Jóns"
Oj, hvaða kvikindi er á ÞESSARI mynd? Má ég þá frekar biðja um geitunginn, mér finnst hann beinlínis fagur miðað við þennan ófögnuð. - Og ein athugasemd frá málfarslöggunni: enda þótt bróðir þinn sé mikill hæfileikamaður í hvívetna hefur hann enn ekki öðlast getu til að FÆÐA af sér afkvæmi. Enn sem komið er sjá konurnar alfarið um þann gjörning, hvað sem síðar kann að verða í þessum ruglaða ofurtæknivædda heimi. - Annars vildi ég bara segja: þú ert frábær og ég elska þig.
Mamma, ég held að hann hafi skrifað þetta viljandi. Téð kímnigáfa enn að plaga þig? ;)
Finnur, ég er svo glöð að þú skulir vera bróðir minn að það nær engum áttum.
Og loksins, LOKSINS heiðrar einhver "the legend of Gunni" eins og hann á skilið.
Þetta eru allt fullkomlega gildar athugasemdir.
Það er greinilega biturð víðar en á pöbbnum.
Fyrst og fremst: til hamingju með bróður þinn.
Nú þegar formlegheitunum er fullnægt þá verð ég að segja að ég öfunda þig! Stúdentamótmæli, anarkismi og einkavæðing. Ég er rebbellinn í skólanum mínum bara út af því að ég vildi færa slökkvitækið í leikhúsinu á meðan við lékum beint fyrir framan það, í um sjö mínútur. Það varð allt vitlaust.
Nei, samnemendur mínir fara bara heim að gráta ef þeim finnst skólinn brjóta eitthvað á sér. Það að Norðmenn mótmæli einhverju er ekki inni í myndinni. Nema etta eitthvað hafa aukinn kostnað í för með sér varðandi húshitun. Þá er fjandinn laus.
Fyndið hvernig þú lýsir lífi þínu ýmist sem *íkornaskemmtisiglingu* eða *hænu-verpandi-kúluhatta-púsluspili* ... gætir þú teiknað þetta fyrir mig?
P.s. Vá hvað ég sakna Frakklands! Það kemur voða sjaldan fyrir í HÍ að fólk ráðist inn, reki kennara og nemdendur úr tíma, útaf skólalóðinni, slái upp veislu og dansi kóngakónga ...
Hver mundi ekki sakna úthverfaóeirða, fjöldamótmæla, lestarverkfalla og bílabrenna? Lífið er ekki samt án þeirra. Frónbúar vita ekki hvað lýðræði er...
Þetta blogg er ekkert fyndið og farkkland er greinilega ömurlegur staður og ekkert spennandi.
Æjæ, sumir pínu bitrir yfir að vera fastir á klakanum. Ef menn kunna engin almennileg tungumál er það svosum skiljanlegt...
heiló, djeiló, bloggó?
Skrifa ummæli