Ég tek fram að myndin hér til hliðar er ekki frá mínum skóla, því þegar við Hildsa ætluðum að ná nokkrum skotum af sambærilegum vígjum á föstudaginn, hafði skólastjórnin lokað kampus algjörlega með hjálp tuttugu löggna (sem voru reyndar bara að chilla inni í rútu þegar okkur bar að) undir því yfirskyni að skólinn væri ekki lengur „öruggt svæði“. Ég bjóst þess vegna við að skólinn yrði opnaður í dag, mánudag, eftir að borðum, stólum og stálstöngum hefði verið ýtt til hliðar og mætti í morgun, ekki viss um hvort ég væri að svíkja einhvern eða eitthvað með því að vilja sitja í tíma. En það voru óþarfa vangaveltur þar sem ekkert tók á móti mér annað en ljótskeggjaður drengur með gjallarhorn, við það að ávarpa múg. Ég náði því miður bara restinni af því sem hann sagði: „Og þess vegna er skólinn lokaður; þess vegna erum við alltaf að mótmæla. Endilega mætið á brautarstöðina á morgun!“
Ég las í blaðinu í dag að fleiri skólar væru blokkaðir, meðal annars Sorbonne, og kraftur stúdentahreyfingarinnar væri að aukast ef eitthvað væri. Þetta er töff, en samt mjög slæmar fréttir fyrir mig. Nemendur reyna að sjálfsögðu að halda sínu striki, en það er erfitt að fá enga tilsögn í því að lesa texta eftir menn sem reyna (ég sver það, þeir eru að reyna) að haga orðum sínum þannig að þau séu sem dularfyllst.
Í öðrum fréttum: það er rigning, það er lestaverkfall, fallega stelpan á kaffihúsinu hættir ekki að kalla mig „ungan mann“. En til að líta á björtu hliðarnar er ég bara hress og mun leitast við að kaupa mér ekta franska peysu á næstu dögum.
Einnig mun ég verða þessi maður á næstu dögum.
9 ummæli:
Ef þú færð peysuna, pant þá fá húfuna.
hverju er verið að mótmæla? eða á maður bara að vita það? einhver svona almenn vitneskja...
þú ert s.s. búin að vera í ræktinni sé ég. þar sem þú munt líta út eins og þessi maður. gott hjá þér.
Ekki líta út. Vera.
já ok. úúú, þá væri ég til í að hitta þig á förnum vegi.
Færð pottþétt vinnu í fylgifiskum ef þú verður þessi gaur!
En ég væri líka til í svar við þessu "hverju er verið að mótmæla"
Ari"Jóns"
Verða? Mér sýndist þetta vera þú með tjöru í hárinu. Sama kankvísa brosið og þessi sjálfsörugga, lífsglaða stemmning.
Þetta er alveg eins og Bill Murray í *La vie aquatique* ... vantar bara skegg. Fáðu þér skegg - þá hættiru kannski að vera *jeune homme* í augum sætu konunnar á kaffihúsinu. Ég var líka alltaf *jeune fille* sem er enn verra því þá er maður í kringum 5 ára aldurinn ...
Bíddu ... ert þú þá ekki gaurinn (eða a.m.k. að verða gaurinn) sem er að gefa út bókina um hvernig maður á að gera konuna sína hamingjusama? Gott hjá þér!
Mér líst ekkert á þennan mann.
Skrifa ummæli