Já, halló þarna. Við systkinin erum loks sameinuð, öll þrjú nema Viddi, ég meina Flóki, eftir u.þ.b. tveggja vikna aðskilnað. Salka dvelur á svefnsófanum í betri stofunni á meðan ég hef náð völdum yfir herbergi Hildar og sef þar á strigapokum á gólfinu með dagblöð fyrir sæng. Hildur hefur fært sig tímabundið yfir í B-álmu þar sem mitt herbergi er staðsett. Einnig má geta þess að á morgun munu allir íbúar hússins skipta um íbúðir „því það er gegt sniðugt“.
En nóg um valdstýrð geðhrif í leiðnu umhverfi. Námsárangur minn hefur verið sveiflukenndur frá upphafi náms og hefur rokkað milli þess að fá 16 fyrir ritgerð og þess að vita ekki að það ætti að skila ritgerð. Ég virðist þó vera búinn að ná tveimur áföngum í hús, jafnvel þremur og mun það vonandi koma sér vel þegar ég flyst yfir í Háskóla Íslands næsta haust þar sem hundur étur hund og hver eining skiptir máli. Áhugi minn á heimspeki hefur eflst ef eitthvað er þó að ég sé orðinn ansi „fokkt öpp“ af þessum extrem-afstæða hugsunarhætti sem einkennir alla heimspeki. Ég skilaði um daginn ritgerð um það hvernig sannleikurinn sé hvergi til nema í mannlegu samfélagi, vegna þess að hann er ekkert nema nauðsynleg skilgreining á því þegar viti bornar skepnur fella rétta dóma um umhverfi sitt (sem þær geta þó aldrei þekkt til hlýtar). Náttúran er alltaf rétt eins og hún er; ekkert nema sannleikur, en þar sem ekkert er rangt er heldur enginn sannleikur til; náttúran á sér tilveru handan þessara hugtaka. Það er ennfremur aldrei hægt að komast að því hvort dómar okkar eru veruleikanum samkvæmir, því veruleikinn er handan skilnings okkar og ógjörningur er að gera samanburð á dómum okkar og veruleikanum. Gott stöff.
1 ummæli:
Ég þakka minn kæri.
Skrifa ummæli