Sumir hafa eflaust átt von á þessu í mörg ár, aðrir hafa haldið að ég væri sloppinn, enn aðrir hafa spurt sig af hverju Hjörtur hafi ekki orðið fyrri til: „Af hverju varð Hjörtur ekki fyrri til,“ hafa þeir spurt sjálfa sig. Um klukkan tíu á föstudagsmorgun, afmælisdag systur minnar, komst ég sem sagt að því að hárið á mér væri lifandi. Eitthvað snardúllulegt kvikindi datt á peysuna mína þegar ég klóraði mér og svo gómaði ég annað stuttu seinna. Lús, baby. Eftir að ég hafði vakið systur mína og gefið henni morgunverð og afmælisgjöf fór ég og keypti skordýraeitur og var síðan gasaður af Sölku. Það vakti eftirtekt mína hvað lúsadeild apóteksins var áberandi og hversu margar mismunandi vörur voru í boði til þess að drepa þennan vanmetna vin okkar, kannski er það móðins að vera með lús í Frakklandi, ég veit það ekki.
Ég neyðist því til að gera hlé á þegar-úr-hófi-kominni kvensemi minni, því ég vil ekki þurfa að svara spurningum eins og: Af hverju geymirðu öll fötin þín í pokum? Eða þá: Af hverju kembirðu þér á tveggja daga fresti? Þetta á þó allt að vera dautt og ég losna sennilega úr einangrun eftir tvær vikur ef mennirnir í geimbúningunum verða sanngjarnir. Ég vona bara að allt þetta skordýraeitur hafi ekki komið leðurblökunni í uppnám, ungarnir eru nýfæddir og þau byggja afkomu sína á að eitthvað sé lifandi í hárinu á mér.
Snýkillinn Valþór gerði sig heimakominnAnnars var bara djassgleði að hafa Sölku á svæðinu, hún flúði yfir landamærin í dag og mun eyða næstu tveimur sólarhringum í Barcelona áður en hún tekur kajakinn heim til Glasgow.
Ég segi bara blésar og vona að allir hafi það gott.
14 ummæli:
Ég heyrði að lús herjaði einungis á lágstéttar- og hjólhýsapakk. En við þessu mátti svo sem búast eftir að fyrsta skegghárið leit dagsins ljós.
greyið drengurinn! að vera kominn með lús svona eins og litlu börnin.. Það er vonandi að þessi annars eflaust ágætu dýr(ef þau héldu sig frá höfðum manna) hætta að ónáða þig!
Ég var 15 þegar ég fékk lús í fyrra skiptið. Fylgifiskar gelgjuskeiðs, sbr. ofvöxt hárs í andliti, ekkert til að hafa áhyggjur af!
En hvernig í ósköpunum stendur á því að Hjörtur varð ekki fyrri til?
Róðurinn gekk vel og sit ég nú í stássstofunni á heimili mínu í stærstu borg Skotlands. Fremur þreytt í handleggjunum eftir áratökin en mjög sátt eftir velheppnað ferðalag þar sem Montpellier stóð fyrir sínu og vel það.
Samt svolítið paranojd ennþá með hárið á mér sko ... nokkrum sinnum búin að fá ofskynjanir milli svefns og vöku þar sem ég held að lýs séu að labba niður bakið á mér.
Ég skal segja ykkur hvernig þetta virkar. Sníkjudýr herja nefnilega bara á fólk sem er lítið í sér og aumingjalegt. Þau ráða ekki við fullnuma einstaklinga. Og þegar um dýnamít persónu eins og mig er að ræða, er alveg fráleitt að halda að lýs gætu tekið sér bólfestu í mér. Þær myndu fjúka burt um leið í sprengikrafti persónutöfra minna.
P.s. Ooooojjjjjjj! Lús!? AHAHAHA!!!
fullnuma? í persónutöfrum?
Í lífinu beibí.
Ég er lítill og loðinn, samt hef ég aldrei fengið lús. Ætli ég sé ekki bara svona magnaður persónuleiki!
Hjörtur, þú ert að missa hárið. Þú veist; að verða sköllóttur. Mjög hratt. Þess vegna færðu ekki lús.
Neðanbeltisskot
Skúli tekur bara neðanbeltisskot, enda neðanbeltis-maður.
Enda á Skúli neðanbeltisþveng úr sælgæti, nema hann sé búinn að borða hann.
Bíddu... erum við ekki öll sammála um það að það er langmest gaman neðan beltis?
Þvengurinn er óétinn enn.
Skrifa ummæli