fimmtudagur, 17. apríl 2008
Viðtal við Barbapabba
Við áttum stefnumót á Austurvelli um hádegi. Það var glampandi sól þennan dag og ég hafði áhyggjur af að ég myndi ekki þekkja Barbapabba í mannhafinu sem var saman komið til að njóta kærkominnar veðurblíðunnar í hádegishléinu. Ég þurfti þó ekki að hafa áhyggjur enda var rithöfundurinn og þúsundþjalasmiðurinn með bláa Yankees-húfu eins og hann hafði sagt. Við heilsuðumst, settumst á mitt túnið og ég pantaði kaffi. Síðan mundi ég að venjulega eru engir þjónar úti á torgi og skildi að ég hafði látið glepjast af venjulegum manni í þjónabúningi. Þetta voru 359 krónur sem ég átti aldrei eftir að endurheimta. Ég lét það ekki trufla mig heldur fór að yfirheyra Barbapabba.
Nú er ný bók komin í prentun og þú ert að vonum spenntur yfir viðtökunum, ekki satt.
-Jú, þetta er búið að vera sannkallað ævintýri. Í þessari nýju bók fer ég til Afríku og breyti mér meðal annars í brunna, skólahús og kvenstígvél. Allt er þetta gert í góðu gamni, en auðvitað fylgir þessu einhver alvara, ég hef sjaldan gert jafnmiklar rannsóknir fyrir skriftir og í þetta skiptið. Ég komst meðal annars að því að höfuðborgin í Malí heitir Bamakó. HAH! Geturðu ímyndað þér? Bamakó.
Virkilega? Þetta er allt mjög áhugavert, en segðu mér, voru konan og börnin skilin eftir heima í þetta sinn?
-Ekki aldeilis. Þau voru reyndar ekki með mér allan tímann, en góðar þrjár vikur samt og skemmtu sér afskaplega vel. Barbasnjall breytti sér í tré og krana og svarti, loðni gæinn...
Barbavænn?
- Öö, já. Hann. Hann breytti sér í svarta og loðna eðlu. Snilld, sko.
Magnað, en ef við tölum aðeins um ferilinn, þá byrjaði þetta allt fyrir mörgum árum síðan þegar þú bjargaðir fólki úr brennandi húsi, ekki satt?
- Hárrétt. Það var um það leyti sem mjög margt var að gerast í mínu lífi. Ég hafði nýlega byrjað að leigja í garðhýsi, sat við skriftir allan daginn og kynntist Barbamömmu stuttu eftir eldsvoðann. Ég var ekki þessi ofurstjarna sem ég er í dag. Samt sem áður voru ákveðnir aðilar, sem sáu kannski ákveðna pólitíska ógn í mér, staðráðnir í að ata mig auri. Það var því bæði gott fyrir mig og brennandi fólkið að ég skyldi eiga leið hjá.
Tölum um fordóma, Barbapabbi. Finnið þið Barbamamma fyrir áreiti sem tengist því að þið séuð „interracial“ par?
- Þetta er spurning sem ég fæ oft. Ég finn ekki mikið fyrir því sjálfur og alls ekki í tengslum við samband okkar Barbamömmu, en ég veit að hún hefur orðið fyrir barðinu á þessu. Fær verri þjónustu á skemmtistöðum og jafnvel einhverjar augngotur og köll frá fólki úti á götu. Hún bjargaði náttúrulega aldrei fólki úr brennandi húsi.
Við ættum kannski að kveikja í húsi? Hahaha.
- Já, góð hugmynd.
En svo við víkjum talinu að hinum mörgu og litskrúðugu börnum þínum, þá hefur heyrst að Barbabókelskri (eða þarna appelsínugulu gellunni með gleraugun) hafi verið boðin lektorsstaða við Háskóla Íslands. Geturðu staðfest það?
- Mér er það mikil ánægja að staðfesta þann orðróm. Ég er mjög stoltur af öllum börnunum mínum. Barbaappelsínugulagella á þennan heiður fullkomlega skilið. Ég kippti ekki í neina spotta og er alls ekki besti vinur rektors.
Það er afar hentugt að þið skulið eiga eitt barn af hverjum lit með einn sérstakan hæfileika hvert. Haha. Hvað finnst þér um þá sem hafa ýjað að því að þú og Barbamamma eigið fleiri börn sem voru af sama lit og hafi verið send burt í fóstur? Við höfum heyrt af öðrum Barbadýraverndunarsinna (eða þarna gula kallinum sem elskar dýr) í Brasilíu og jafnvel bleikum Barbahomma í Kenýa. Er eitthvað til í þessum ásökunum?
- Þessu viðtali er lokið !
Að svo mæltu breytti Barbapabbi sér í stóran kassabíl og keyrði burt. Ég var einn eftir á grasinu, þungt hugsi. Stuttu seinna byrjaði að rigna. Einhvers staðar í fjarska byrjaði róni að syngja um leið og mér var réttur reikningur fyrir grasið sem ég hafði maulað á meðan á viðtalinu stóð. Gömul kona brá fyrir mig fæti á leið minni heim í kjallaraíbúðina okkar Gunnbráar, kærustunnar minnar. Matarboð með vinum okkar sem eiga líka litla, huggulega íbúð í miðbænum beið okkar og ég hugsaði með mér að lífið væri alls ekki svo slæmt. Alls ekki svo barbaslæmt.
Róman Falk, 2008.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
8 ummæli:
Með þeim fyrirvara að ég hlæi mér ekki til óbóta á næstu augnablikum, þá hlakka ég svo mikið til að hitta þig í sumar!
p.s. Barbagulur saknar þín
Aaah, ég er með magaverk af hlátri ... annars er Barbabláigaurinn í góðu stuði hérna.
"Hún bjargaði náttúrulega aldrei fólki úr brennandi húsi."
AAAAAAAAAAAHAHAHAHA!
þú ert ágætur.. vertu svo vænn að fara láta heyra í þér, plís.
Þú ert svo skemmtilegur!
Þú ert furðulegur snillingur, það máttu eiga, Valdemar minn!
Þetta var barbafyndið.
Hahaha! Þú ert fyndinn maður, Finnski... en hey ég ætla út á land í ALLT sumar og verð að fá að hitta þig áður. Hvenær kemurðu heim?
Skrifa ummæli