miðvikudagur, 14. maí 2008

Happy spanish man


Halló, kæra fólk.

Mig langar að búa á Spáni í staðinn fyrir Frakkland. Það var sko frítt tapas með hverjum drykk, fólk var EKKI hranalegt ef maður bað það um vatnsglas, konur í dýrindiskjólum voru dansandi í kringum blómakrossa eins og einhvers konar jákvætt Ku Klux Klan og í morgunmat fær maður djúpsteikt kleinuhringjakennt dót sem maður dýfir í súkkulaði ! Gerist það betra?

Eftir dvöl mína á Spáni fór ég í sveitina í fimm daga þar sem ég var í fullri vinnu við að búa til sement. Ekki alvöru sement eins og alvöru karlmenn búa til, heldur var ég að „búa til sement“ með Sévan (3ja ára). Í sementið fór meðal annars sandur, vatn, sement (!?), kúkur, möl, steinar og bútar af trjám. Fimm daga í röð. Ég hlakka ljóst og leynt til þegar leikirnir byrja að verða aðeins þróaðri, hann fer að vinna betur í persónusköpun og söguþræði og hættir að treysta eins mikið á að moka og henda og hann gerir núna. Samt kvarta ég ekki, ég þurfti alla vega ekki að standa í kringum gamlan bíl og segja „mmm“ eða „mjamm“ í nokkra klukkutíma á dag eins og hinir karlmennirnir. Svo var maturinn alveg exelant.

(Innskot: Þekkir einhver lesandi hestvagnsins muninn á býflugu, hunangsflugu og randaflugu? Hverjar eru af sömu tegund og hver þeirra býr til allt hunangið? Á frönsku er þessu skipt í bourdons, abeilles og svo eru vespur guepes. Françoise segir að les bourdons séu þessar feitu og stóru, geti verið svartar en stundum með rendur, en hunangsflugurnar; les abeilles, séu minni og líkari vespum og þær búi til allt hunangið. Ég hélt alltaf að randaflugur og býflugur væru það sama og þetta byggi allt saman til hunang sem fyndnir birnir væru iðnir við að stela, en nú veit ég ekki hvaðan á mig stendur veðrið.)

Nú bíð ég eftir og býð strákunum heim í hús um leið og þeir standa á franskri jörð í morgunsárið þann 15. maí. Nei, ég er ekki að fá Sveppa, Audda og félaga í heimsókn (HAHAHAHAHAHAHAHAHAHAHAHAHA) heldur samanstanda núnefndir strákar af Jóni Ragnari (The Coroner), Hirti (The Executor) og Skúla (The Flintstones).

Sjáumst á morgun, sætmenni !

Update: Ég fór á vísindavefinn: Býflugur (Apis mellifera) og hunangsflugur (Bombus sp.) eru ættkvíslir í býflugnaættinni (Apidae). Þar sem býflugur lifa ekki villtar á hér á landi má gera ráð fyrir að í mörgum tilfellum eigi fólk í rauninni við hunangsflugur þegar það spyr Vísindavefinn um býflugur. Þannig að það eru engar abeilles á Íslandi, bara bourdons. Athyglisvert, ekki satt?

10 ummæli:

Nafnlaus sagði...

... og þá heldur áfram vídjó kommentin mín.

Talandi um býflugur, randaflugur og svona.

Hefuru heyrt um giant hornets?

http://www.youtube.com/watch?v=6fTrSOFyfxs

Mana þig til að horfa á þetta myndband til enda.

Atli Sig sagði...

Finnur. Ég bað Hjört um að knúsa þig frá mér, minntu hann á það!

Finnur Guðmundarson Olguson sagði...

Ég HEF heyrt um risageitunginn, ég skellti meira að segja inn mynd af honum hérna á síðunni fyrir löngu. Ég elska hvernig gaurinn sem talar inn á allar bíómyndaauglýsingar talsetur líka þetta myndskeið. „This isn't even a fight.“ (dramatísk þögn) „It's a massacre.“

Engar áhyggjur Atli.

Atli Sig sagði...

Það er alltaf hægt að treysta á þig Finnur.

Vildi að ég gæti sagt það sama um Hjört...

Nafnlaus sagði...

hahaha. Ég horfði líka á þáttaseríu um menn sem voru að klífa Everest tindinn og þessi sami maður var narrator með álíka dramatilburðum.

Fyndnast var samt lagið fyrir þættina sem greinilega sami gaur var fenginn til að taka þátt í. Hans þáttur var að nánast hvísla inn á milli takta (það sem er innan sviga er bergmál):

"Ever (ever ever ever) Rest (rest rest rest)!

Nafnlaus sagði...

hvenær kemurðu heiiiiiim?

Sandra sagði...

finnur, hvað búa margar manneskjur í montpellier?

Nafnlaus sagði...

Ein spurning. Af hverju varstu að biðja um vatnsglas?
Léleg nýting á gleri...

Unknown sagði...

Bíð spennt eftir næstu færslu.. Samkvæmt póstkortinu sem ég fékk frá Andorra lumarðu á góðri ferðasögu.. ;)
knús G

Nafnlaus sagði...

Það er kannski allt of seint að setja inn athugasemd núna en ég gat eiginlega ekki staðist freistinguna...
Eftir því sem ég best veit eru litlu feitu hnoðrarnir hunangsflugur en þær framleiða ekki hunang; mjög góð nafngift þar á ferð. Það gera býflugurnar, les abeilles, hins vegar.
Randaflugur veit ég ekkert um en dettur samt í hug að það sé samheiti yfir loðnu flugurnar með rendurnar?
Á Íslandi eru engar villtar abeilles en eitthvað er þó um býflugnabú í rækt, kannski bara hjá einum bónda þó?