miðvikudagur, 28. maí 2008
Stutt hugleiðing
Hvernig er mögulegt að lifa í „núinu“ ef maður trúir ekki á það? Ég er þeirrar skoðunar að við hljótum að lifa í minningunni, jafnvel minningunni af atburðum sem gerðust fimm sekúndum fyrr, því við getum aldrei skilið hluti að nokkru leyti án samhengis við tíma og rúm. Þess vegna er ómögulegt fyrir okkur að meta „andartakið“ til fulls, eða jafnvel til nokkurs, á meðan það á sér stað (ef það á sér yfir höfuð stað). Þeir sem segjast lifa í núinu meina eitthvað allt annað, eins og að þeir taki skjótar ákvarðanir án þess að skeyta mikið um framtíðina (sem ég reyndar trúi heldur ekki á) og hvert þær ákvarðanir færi þá. Fyrir mig hafa minningar svo endalaust vald og gildi framyfir hið ósnertanlega nú. Þær hafa kraftinn til að breyta einhverjum skítlegum atburðum í mikilsmetna, sögulega heimild, kraftinn til að finna aftur einhverja gleðiríka tengingu sem maður átti við annað fólk og magna hana upp í hæstu hæðir í ljúfsárri nostalgíu. Nostalgía er einhver áhugaverðasta tilfinning sem fyrirfinnst í fólki, finnst mér. Stundum finn ég fyrir nostalgíu gagnvart hlutum sem áttu sér aldrei stað, en eru einhvers konar bland þess sem ég vildi að hefði gerst og draumkenndra tilfinninga hverra ég hreinlega kann ekki að gera skil, eins og þær hafi beinlínis komið að utan. Þetta vill gerast þegar ég hlusta á tónlist af ýmsum toga og ég hef stundum staðið mig að því að dæma þá tónlist sem ég heyri eftir því hvort hún magnar upp einhver hughrif í mér sem birtast mér sem hálf„guðleg“ (og þetta eru mikilvægar gæsalappir). Af þessum sökum er Sálumessa Mozarts, tónlist Sigurrósar og ýmis lög The Knife mér afskaplega dýrmæt. Það er eitthvað þar sem ég hef enga stjórn á og er algjörlega utan míns sjónarsviðs. Enginn skilningur og í sama mund fullkomin samlíðan. Ég býst við að fólk finni í raun fyrir sams konar hughrifum þegar það verður ástfangið. Þá er ég ástfanginn af tónlist.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
5 ummæli:
Trúirðu þá hvorki á nútíð né framtíð?
Tíminn líður. Framtíðin á eftir að gerast og er því ekki til...nútíðin getur varla verið eilíf því ekkert er eilíft. Núið....er...orð sem maðurinn fann upp til að lýsa því ástandi sem hann er í hverju sinni en ekkert annað. Er ég nálægt þessu? Hvað myndirðu þá kalla nútímann....bara...tímann? Hvað eru tímarnir okkar, sem við lifum á núna? (annað en lag með Sprengjuhöllinni)
Ég er annars að fíla þessa nostalgíupælingu hjá þér og þá sérstaklega með tónlistina, skil mjög vel hvað þú átt við. Góð tónlist getur látið manni líða ótrúlega vel og get ég ekki ímyndað mér lífið án þess. Jafnvel vond tónlist getur haft sinn sjarma. Maður tengir oft tónlist við eitthvað, stundum eitthvað sem maður þekkir vel eða hefur komið fyrir mann og stundum eitthvað órætt sem maður getur ekki útskýrt. En þessi tengsl geta skapað eitthvað mjög magnað sem tungumálið megnir ekki að útskýra.
Hefur þú lesið Invention of solitude, sjálfsævisöguna hans Paul Auster? Þar talar hann um þá undarlegu tilfininningu að finna fyrir nostalgíu gagnvart núinu sem verður þegar fólk finnur fyrir því að vera fast í fortíðinni eða með hana á heilanum. Þetta gerist t.d. þegar fólk upplifir sambandslit eða dauða ástvinar, og lifir í afneitun eða sjálfsblekkingu um tíma. Áhugavert, non?
Æ, komdu bara heim!
Ég veit ekki með ykkur en mér fannst þetta bara gríðarlega fallegur texti hjá þér. Kemur vel undan vetri.
Quote dagsins kemur án efa frá Orra Páli Dýrasyni, trommuleikara Sigur Rósar þegar hann var spurður um hvað honum þætti um að nýjasta myndband þeirra hefði verið bannað á youtube
"Við bjuggumst alveg við einhverju svona. Það virðist vera allt í lagi að sýna fáklæddar konur að glenna sig, eins lengi og það er einhver pjatla fyrir píkunni á þeim."
Góð stuðlun.
Ég er næstum alltaf nostalgísk/angurvær/happy-sad eða hvað sem maður kýs að kalla það. Finnst það stundum fjötur um fót, en held samt að það sé líka forsenda þess t.d. að geta skrifað, samið og fílósóferað. Þetta felst held ég í því hvernig maður skynjar stemmningu og hvernig maður vinnur úr henni.
Góð pæling. Hlakka SVO til að hitta þig eftir rúma viku.
Skrifa ummæli