laugardagur, 15. mars 2008

Bögg

Hæ, ég er ekkert rosalega mikið fyrir að kvarta og vorkenna sjálfum mér því ég fæ alltaf upp í hausinn myndirnar sem ég hef séð af fólki sem þarf í alvörunni að telja hrísgrjónin sem það vill kaupa og sárvantar vítamín A til P. En nú er klukkan 01:44 og ég er nýkominn af barnum þar sem ég var að dansa einn míns liðs við tónlist Gondwana-manna. Það er svo sem allt í lagi per se, tónlist=góð, dans=góður, en núna sit ég í herberginu mínu borðandi kex og fólkið í næstu íbúð er að hlusta mjög hátt á soundtrackið við tíunda áratuginn, sem, ef þið spyrjið mig, var aldrei besti áratugurinn. Ég var að missa kexið mitt í teppið, Á SÚKKULAÐIHLIÐINA og í dag flaug geitungur á mig að því er virðist einungis til þess að reyna að nota síðustu lífsorku sína í að skadda mig því hann dó stuttu seinna (reyndar sökum of mikils magns pappírs þrýst af of miklu afli á líkama hans). Slæmt karma mun því fylgja mér næstu árin. Í dag fékk ég endursent bréfið sem ég sendi Fanney í nóvember og það lítur út fyrir að póstþjónustan hafi lumað á því síðustu mánuði samkvæmt stimplinum. Ég hef greinilega aflað mér óvildar meðal póststarfsfólks, sennilega með því að tippsa heimilislausa manninn sem opnar dyrnar fyrir mér, í hvert einasta sinn. Ég er einnig viss um að ég muni enda þetta kvöld spilandi kotru á netinu, sem er um það bil það dapurlegasta sem hægt er að gera.

Ofan á það allt hefur mér fundist líf mitt einstaklega tilgangslaust síðustu daga og Frakkar einstaklega leiðinlegir. Ég hitti til að mynda fjóra fyrrverandi samnemendur mína í heimspeki fyrir tilviljun um daginn og í staðinn fyrir að spyrja mig hvað ég hafi verið að gera þá tvo mánuði sem ég hef ekki mætt í skólann töluðu þau um torg, kennara og hvernig væri best að fara eitthvert, síðan kvöddu þau. Ég vitna í orð KRS-One í laginu Brooklyn Academy: „That's what we're dealin' with here all the time!“. Hann bætir reyndar við: „I never liked school; fucking devils always told me lies!“ sem er líka viðeigandi. Til að lífga mig við hef ég ákveðið að birta þessa mynd sem á að túlka mig, ef ég væri karakter í Simpsons:



Góðar stundir.

3 ummæli:

Atli Sig sagði...

Vá hvað þessi mynd nær þér vel, gæti næstum því verið ljósmynd af þér!

Unknown sagði...

Finnur, félagi minn og bróðir. Komdu heim svo við getum þjáðst saman. Ég sakna þess að hafa þjáningabróður innan handar.

Nafnlaus sagði...

Simpsons-myndin af þér = óhugnanlega góð.

Tíundi áratugurinn = svo vondur.

Svolítið sammála þér um tilgangsleysi lífsins þessa dagana, sem máske þýðir að það liggur almennt í loftinu og eftir svona tvær vikur verða allir æðislega hressir allt í einu? Held samt að hin últímatíska hressingaraðferð væri að koma í heimsókn til systur sinnar í Glasgó - einnig þekkt sem "Didda stuð" - en þú ræður ...

Vona að þú haldir með Wales í dag. Frakkar eru jú svo vibbalega leiðinlegir.