laugardagur, 1. mars 2008

Eins manns afrek

NÝTT! NÚ MEÐ LEIÐRÉTTINGUM MÓÐUR MINNAR!

Já, nei, ég hef ekki staðið auðum fótum síðan þið fenguð síðast hlutdeild í þeirri æsispennandi heimsmeistarakeppni í skógarhöggi sem lífssögu minni mætti hvað helst líkja við. Svo margt hefur drifið á daga mína að ég neyðist til að skipta atvikum niður í atvikaskrá til að gera langar sögur stuttar; hvert atvik innan skráarinnar verður merkt tölustöfum þeim sem finna má á bilinu frá einum og upp í þrjá og þeim gerð skil með meðallangri athugasemd sem vísar til hvers atviks fyrir sig ásamt skýringarmynd. Allt er þetta gert til að einfalda mál mitt og gera lestur lesenda sem þjálastan í meðförum. Njótið, ellegar deyið.

1. Púsl
Eftir Massilíuför mína (og Hildar reyndar líka, en þetta er mitt blogg, ekki hennar) sneri ég aftur með 1500 bæta púsl í höndum sem ég hófst handa við að handleika um leið og hendur mínar komust inn fyrir þröskuldinn á íbúðinni minni. Fjórum dögum síðar hafði ég lokið við þrautina án þess að hafa sofið eða borðað, hafandi lifað á regnvatni og haft þvaglát í frumstæðan plastpoka sem ég bjó til úr tágum. Afraksturinn má sjá hér að neðan:

Segið svo að ég sé ekki ótrúlega frábær snillingur.


2. Kaka
Menn halda kannski að ég hafi látið staðar numið við fullkomnun púslins, en nei, það var meira í stjörnunum fyrir þennan unga mann. Stutt essemmess til mömmu gerði það að verkum að undirritaður stóð uppi með brúnkökuuppskrift á fimmtudegi og brjálaða áætlun um að virkja ofninn til sköpunar þeirrar köku sem téð uppskrift vísaði til. Svefnvana og máttlaus af of miklu púsli reikaði ég búð úr búð...eða, þú veist, í Monoprix...í leit að negli: kryddi sem hefur einmitt enn þann dag í dag ekki verið þýtt úr frönsku á íslensku samkvæmt rannsókn sem ég gerði áðan. En almennt þýðingarleysi var ekki það eina sem þjáði undirritaðan þetta eftirmiðdegi heldur júníverselt negulleysi. Engan negul var að finna. Nú voru góð ráð dýr. Ykkar maður dó þó ekki ráðalaus og hugsaði með sér: „Af hverju ekki nota kanil?“ Já, það var svarið, að tvöfalda kanilmagn uppskriftarinnar í samræmi við þann negul sem upp á vantaði. Afraksturinn má sjá hér að neðan:

Kakan var ótrúlega sexý.


3. Módel af austurþýsku kaffihúsi
Ef þið þekkið strákinn þá vitið þið að honum fellur aldrei verk úr hendi og finnst jafnan algjörlega óþolandi að hafa tvær hendur tómar þegar kemur að einhverju að gera. Þegar kakan var uppurin, púslið fjarlæg minning og menn með sveðjur farnir að gera aðsúg að nágrönnunum sagði Finnur því hingað og ekki lengra: „Hingað og ekki lengra,“ sagði hann. „Finnið mér eitthvað að gera.“ Og svarið kom í formi gjafar sem systir mín hafði borið með sér frá Berlín þegar hún lagði leið sína til mín á þorranum. Nei, ekki kóleran, heldur allverulega sexý módel af austurþýsku kaffihúsi sem áður fyrr stóð við Karl Marx-götu í Austur-Berlín. Módelið er einkar óhentugt í samsetningu og flest eitt gert til að skaprauna módelgerðarmanninum (og/eða -konunni). Þetta er módel af gamla skólanum, byggt á klipp-og-lím-konseptinu. Litir hafa verið af skornum skammti austan múrsins, nema þá hinir klassísku litir þvaggulur, sovétbrúnn og líkgrár, sem voru notaðir óspart við gerð módelsins. Engar leiðbeiningar fylgdu, hvorki á þýsku né nokkru öðru máli og mynd af fullbúnu kaffihúsinu var heldur ekki til staðar, sennilega af því að enginn hefur nokkurn tíma sett módelið saman og því síður séð ástæðu til að taka af því mynd eftir á. Það aftraði mér samt ekki:

Glæstur arkítektúr fær virkilega að njóta sín, takið eftir Spútnik-eftirlíkingunni á horni hússins.


Módelið af Kaffi Moskvu var kosið mest sexý módel ársins 1972.

14 ummæli:

Finnur Guðmundarson Olguson sagði...

Styðjið á myndir til að fá þær upp betri og stærri.

Nafnlaus sagði...

Það er naumast að þú ert kominn út í stórtækar aðgerðir eftir að skólagöngunni lauk! Ekkert samt fara að gerast byggingaverkfræðingur - eða yfirföndrari á ríkissjónvarpinu. Vona annars að þú hafir það gott í Frans og sért ekki orðinn hundleiðinlegur af of miklum samvistum við Frakka. En miðað við þessi skemmtilegheit virðast það nú óþarfa áhyggjur...

Sisi sagði...

úúúhú, ég held að þetta sé rétt hjá þér Finnur, ég held að ég hafi aldrei áður séð jafn sexý módel. ég vissi ekki að hús gætu verið svona getnaðarleg.

Atli Sig sagði...

Já hver myndi ekki vilja geta börn með þessum húsum?

Nafnlaus sagði...

Jess! Kaffi Moskva blífur. Austur-Þýskaland og fagurfræði áttu aldrei samleið nema í nostalgískum skilningi.

Vildi að ég hefði getað borðað kökuna með ykkur, púslað púslið og sett eins og eitt "Lasche" á módelið. Og hey, ég held ég hafi líka einhvern tíma verið að leita neguls í Þýskalandi, eða kannski var það hjarta(r)salt ...

astarmafian sagði...

Þetta er án efa ljótasta, leiðinlegasta og minnst spennandi módel sem ég hef á minni löngu, módel-drifnu ævi séð. Ef þau eru ekki inní glerflöskum, þá vil ég ekki af þeim vita.

Nafnlaus sagði...

Er kakalónn í íbúðinni ?

Erla Elíasdóttir sagði...

Soldið einsog Kjarvalsstaðir, ef þeir væru íþróttahús. Hvar er Massilía?

Finnur Guðmundarson Olguson sagði...

Marseille. Dö. Ekki vera svona landsbyggðarleg.

Nafnlaus sagði...

Ó, Hjörtur. Þú hefðir átt að sjá módelin sem ég keypti EKKI. Þá fyrst hefðirðu tárast af módelljótleika.

Unknown sagði...

Hvaða myndavél ertu eiginlega að nota í að taka þessar myndir. Hún er ekkert að eyða óþarfaplássi í fókus allavega ;D

Ari"J"

Atli Sig sagði...

Fókus er ofmetinn.

Nafnlaus sagði...

Mæli með því næst þegar þú grautar í köku að splæsa smá kremi á milli því þá ertu dottinn í lagköku og þá ertu náttúrulega kominn í beina samkeppni við þessa stóru í kökuheiminum.

Nafnlaus sagði...

Þú ert ógeðslega frábær snillingur...Ég er alltaf að segja þér það Finnur. Og takk fyrir að blogga því ég vissi ekki hvað ég átti að gera eftir að þú tókst þá dramatísku ákvörðun að hætta á Fésbókinni.

En þú veist að ég elska þig og hlakka til að sjá þig næst.

kv.Jakob ómars (get ekki sett nafn mitt)